El Morya

From TSL Encyclopedia
This page is a translated version of the page El Morya and the translation is 100% complete.
Painting of El Morya wearing a yellow turban and a blue robe
Uppstigni meistarinn El Morya

El Morya er yfirmaður Darjeeling ráðsins í Stóra hvíta bræðralaginu, chohan-meistari fyrsta geisla og helgiveldi ljósvakamusteris hins góða vilja uppi yfir Darjeeling á Indlandi. Hann er stofnandi Summit Lighthouse og andlegur meistari (gúrú) og fræðari boðberanna Marks L. Prophet og Elizabeth Clare Prophet.

Hann stendur fyrir hina guðlegu eiginleika hugrekkis, vissu, krafts, hreinskilni, sjálfsbjargarviðleitni, áreiðanleika, trúar og frumkvæði. Þetta eru eiginleikar föðurímyndarinnar – stjórnmálamaðurinn, framkvæmdavaldið, valdhafinn. Vegna þess að hann hefur verið fyrirmynd þessara ómissandi dyggða hefur El Morya, á mörgum æviskeiðum, borið veldissprota valdsins og stjórnað mörgum konungsríkjum viturlega og vel. Stjórn hans hefur ekki verið einræðissinnuð sem gengur út á að þegnar ríkisins lúti breyskum duttlungum yfirvalda; heldur felst stjórnmálasýn hans í því að Guð sé hafinn yfir mennina. Hann hvetur þegna sína til upplýstrar hlýðni við heilagan vilja Guðs.

Æviskeið El Morya

Abraham hefur samneyti við þrjá engla (1. Mósebók 18:9–15), Jan Victor

Í mörgum æviskeiðum fram til nútímans frá upprisu sinni hefur ástfólginn El Morya tekið virkan þátt í þjónustu við ljósið. Eins og sonur Enoks, sem „gekk með Guði og hvarf, af því að Guð nam hann burt“ í helgisiði uppstigningar; sem einn af sjáendunum sem smaug inn í hærri áttund ljóssins í hinu forna landi Úr í Kaldea; og sem innfæddur Persi, sem tilbað hinn eina Guð, Ahura Mazda – í þessum og mörgum öðrum æviskeiðum lærði hann að gera tilraunir með „guðlega raforku“ og varð sífellt meðvitaðri um andlegan kraft sem streymir í gegnum manninn. Síðar náði hann árangri í uppbyggilegri notkun á fóhat – dularfullri raforku algeimsvitundar (í kyrrþey eða virkur) – þessa knýjandi lífskrafts, sem, þegar guðleg tilskipun kallar hann til verka, þá hreyfir við þróun alheimsins, vetrarbraut eða sólkerfi, eða jafnvel mannveru frá upphafi vega til enda köllunar sinnar.

Abraham

Aðalgrein: Abraham

Abraham, hebreskur ættfaðir og forfaðir hinna tólf ættkvísla Ísraels (um 2000 f.Kr.). Gyðingar, kristnir menn og múslimar veita honum sess í sögunni sem þeim fyrsta til að tilbiðja hinn eina sanna Guð. Í frásögn Biblíunnar um ævi hans er upphaflega skírskotað til hans sem Abrams (sem merkir faðirinn eða faðir minn er upphafinn). Guð nefndi hann síðar Abraham sem hefð er fyrir að túlka sem „faðir margra þjóða“, en nú telja fræðimenn að nafnið sé mállýskuafbrigði af Abram.

Biblían sýnir fyrst Abraham og fjölskyldu hans sem borgara frá Úr í Kaldeu – hinni blómlegu, menningarlegu, pólitísku og efnahagslegu miðstöð tæknilegrar, háþróaðrar, súmerskrar siðmenningar. Heimildir gefa til kynnu aðAbraham hefði verið af göfugri ætt sem bjó yfir hernaðarmætti um 1800 f.Kr. og „hafi verið auðugur verslunarmaður sem ferðaðist um í kaupmannalest. Hann átti í samnings- og sáttmálabundnum samskiptum við innfædda höfðingja og samfélög.“ Aðrir hafa lýst ættföðurnum sem tígulegum höfðingja ættflokks hjarðmanna, bænda og stríðsmanna.

Hann hafi verið súmerskur aðalsmaður af konungborinni prestaætt. Hann hafi rekið stórt heimili og einkaher. Reyndar er Abraham lýst í Mósebók sem hafi átt í samskiptum við konunga, gert hernaðarbandalög og samið um jarðakaup. Hann er sagður hafa verið friðelskur, vopnfær, stórmannlegur og göfuglyndur sigurvegari, holdgervingur hugsjóna, réttlætis, réttvísi, ráðvendni og gestrisni. Honum er einnig lýst sem spámanni og milligöngumanni frammi fyrir Guði. En það sem mikilvægast er, Abraham er fyrirmyndarmaður (frumgerð mannsins) en hélt fast við trú sína á endurtekin loforð Drottins um að hann yrði „faðir margra þjóða“, jafnvel þegar ytri aðstæður virðast helst benda til hins gagnstæða.

Í fyrstu Mósebók er okkur sagt að Abraham, faðir hans og fjölskyldan öll hafi farið frá Úr til að búa í Harran í um 1000 km fjarlægð frá fyrri heimkynnum. Harran var stór verslunarborg í norðvesturhluta Mesópótamíu í frjósama hálfmánanum (þar sem Sýrland er núna). Þó að hljótt sé um fyrstu ár Abrahams í Biblíunni, greinir munnleg hefð gyðinga frá því að hann hafi barist fyrir því að snúa mönnum til eingyðistrúar. Hann er sagður hafa mölbrotið skurðgoð föður síns, Tera, skurðgoðasmiðs sem „þjónaði öðrum guðum“, samkvæmt Jósúabók.

Í Biblíunni er sagt frá því þegar Abraham var 75 ára og faðir hans var dáinn, hafi Drottinn kallað til hans og boðið honum að yfirgefa allt – ætt sína og hús föður síns, menningu og trúarsöfnuði Mesópótamíu – og ferðast til „lands sem ég mun sýna þér“. Drottinn lofaði: „Ég mun gera þig að mikilli þjóð." Abraham fór frá Harran ásamt konu sinni, Saraí (sem Guð breytti síðar í Söru), Lot bróðursyni sínum, og „öllum fjárhlutum sem þeir höfðu eignast og þeim sálum er þeir höfðu fengið í Harran“. Þegar þeir komu til Kanaanlands birtist Drottinn Abraham og lofaði: „Niðjum þínum mun ég gefa þetta land.“

Þegar mikil hungursneyð reið yfir landið fór Abraham suður til Egyptalands. Þar sem hann óttaðist að Egyptar myndu drepa hann vegna fegurðar eiginkonu sinnar, þá kynnti Abraham Söru sem systur sína og leyfði Faraó að taka hana inn í húshald sitt. Að endingu sendi Drottinn plágu yfir Faraó og hús hans. Þegar egypski stjórnandinn komst að sannleikanum, vísaði hann Abraham og Söru skjótt á brott ásamt öllum þjónum, fénaði og auðæfum sem Abraham hafði áskotnast í Egyptalandi.

Þegar aftur til Kanaanlands var komið reis sundurþykkja á milli hirðingja Lots og Abrahams og skildu þeir frændur við svo búið. Abraham bauð Lot að velja sér yfirráðasvæði af rausnarskap sínum. Lot settist að á frjósamri sléttu Jórdans sem sneri í átt að Sódómu en Abraham bjó í Hebron innan Kanaanlands sem virtist vera minna eftirsóknarvert búsvæði. Eftir að Lot fór sagði Drottinn Abraham að hann myndi gefa honum og niðjum hans allt landið sem hann gæti séð – í norðri, suðri, austri og vestri. Og þó að ættfaðirinn væri enn barnlaus sagði Drottinn að niðjar hans yrðu jafn óteljandi sem „duft jarðar“.

Næst sýnir Biblían Abraham sem herforingja. Þegar öflugt konungsbandalag hernam Lot og allar eigur hans, vopnaði Abraham 318 af sínum eigin „þjálfuðu þjónum“ og gekk til liðs við aðra höfðingja í landinu til að sigra óvinina og bjarga Lot. Að þessum sigri loknum blessaði Melkísedek Abraham en hann var konungur í Salem og prestur hins æðsta Guðs (El Elyon). Melkísedek „reiddi fram brauð og vín“ og Abraham gaf honum tíund af herfanginu. Abraham skilaði síðan öllum hinum herteknu aftur og ránsfénu til Sódómukonungs og neitaði boði konungs um að taka sjálfur hlut í fengnum.

Biblían sýnir Abraham einnig í hlutverki milligöngumanns. Drottinn trúði Abraham fyrir fyrirætlun sinni um að eyða óguðlegu borgunum Sódómu og Gómorru. Abraham tryggði sér fullvissu Guðs um að Sódómu yrði hlíft ef þar fundust svo mikið sem tíu réttlátir. Þó að borginni væri á endanum eytt vöruðu tveir englar Lot við yfirvofandi hörmungum og slapp hann.

Þrátt fyrir endurtekin loforð Drottins um að niðjar Abrahams yrðu óteljandi var Sara enn ófrjó eftir tíu ár í Kanaan. Hún lagði til, eftir þeirra tíma hætti, að Abraham myndi feðra barn með Hagar ambátt sinni. Hagar fæddi þá Abraham son, Ísmael. Þrettán árum síðar þegar Abraham var 99 og Sara 90, opinberaði Drottinn sig ættföðurnum sem El Shaddai, „hinn almáttugi Guð.“ Drottinn stofnaði ævarandi sáttmála við Abraham um að vera honum Guð og afkomendum hans. Hann opinberaði að Sara myndi fæða son, Ísak, „um þessar mundir á næsta ári“ og Ísak átti að vera erfingi Abrahams en ekki Ísmael. Eins og Drottinn hafði spáð "gat Sara loksins og ól Abraham son í ellinni".

Samt var ættfaðirinn enn ekki búinn að gangast undir hinstu þolraunina á trú sinni. Guð bauð honum að fórna einkasyni sínum og langþráðum erfingja á fjalli í Móríalandi. Í lok þriggja daga ferðalags reisti Abraham altari og lagði Ísak á brennifórnarviðinn og lyfti hnífnum til að slátra unga drengnum þegar engill Drottins kallaði: ,,Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn.“ Abraham fórnaði hrúti í staðinn og í síðasta sinn staðfesti Drottinn sáttmála sinn við Abraham. Eftir að Sara dó, giftist Abraham Ketúru sem ól honum sex börn. Þótt ættfaðirinn hafi séð fyrir öðrum börnum sínum „gaf hann Ísak allt sem hann átti“. Abraham lést 175 ára að aldri og var grafinn við hlið Söru í Makpelahelli sem gyðingar, kristnir og múslimar helga fram á þennan dag – en allir rekja þeir uppruna sinn til Abrahams.

Náið samband Abrahams við Guð og trúarbreytni hans hefur áunnið honum nafnbótina „vinur Guðs“ í bæði kristnum og múslimskum ritningum („El Khalil“ í arabískum texta Kóransins). Hann er, eins og Páll postuli segir í Rómverjabréfinu, ekki aðeins faðir gyðinga heldur „allra þeirra sem trúa“. Múslimar (sem trúa því að Arabar séu komnir af Abraham í gegnum Ísmael) virða ættföðurinn meira en nokkra aðra mannveru í Biblíunni. Á Jaffahliðið í gömlum borgarhluta Jerúsalem er grafinn texti úr Kóraninum: „Það er enginn Guð nema Allah og á Abraham hefur hann velþóknun.“

Melkjör

Aðalgrein: Melkjör

MELKJÖR var einn þriggja vitringanna sem heiðruðu Krists-barnið. Hann dýrkaði vilja Guðs í ljóma sonar Guðs. Það var Melkjör sem fullkomnaði vísindin um hringrás himintunglanna í kosmískri stjörnuspeki. Hann fylgdi með stærðfræðilegri nákvæmni stjörnu sem fylgdi nærveru sveinbarnsins, fæddu af Maríu mey, og hann bar hina dýrmætu gullgjöf – hið gullna rafskaut guðlega hugans, huga þann sem átti eftir að rætast fullkomlega í alheimsvitund Krists Jesú; gull konungs konunganna, friðarprinsins; gull kenninga hins eilífa Kristus, sonarins, sem stígur fram úr hinni gullnu sól réttvísinnar; gull – líf í allsnægtum sem hann myndi endurreisa handa öllum, fórn guðsmóður hans til barna sinna.

Í fyrirlestri sem haldinn var 16. apríl 1976 lýsti El Morya reynslu sinni af nokkrum hinna fyrstu endurfæðinga sálar sinnar, ef til vill á Merkúr, sem undirbjó hann fyrir holdtekju hans sem Melkjör:

„Guð má vita þann óratíma sem ég var chela-lærisveinn vilja Guðs áður en ég vissi jafnvel merkingu orðsins chela-nemi eða þekkti hugmyndina um Gúrú? En fyrir mér var Guð hið gullna ljós dagrenningarinnar. Og ég skynjaði í fyrstu geislum morgunskímunnar vilja hins kosmíska tilgangs – lífsvilja og skapara handan við sjálfan mig. Og í fjölda æviskeiða var morgunroðinn miðpunktur athugunar minnar á guðdómnum. Í gegnum snertingu við Helíos og Vesta var annað slagið, að mér óvitandi, komið á baug – flæðisbaug yfir boga sem kom til vitundar minnar. Og ég fór að finna fyrir viðbrögðum loga Guðs innra með mér við Guði allra guða í sólinni á bak við sólina.”

„Athugunin á þessari samstillingu við lífið hélt áfram nokkur fleiri æviskeið uns ég gat ekki einu sinni hafið dag í lífi mínu án þessa sambands og þessa orkuflæðis – rennsli hugmynda inn í vitund mína með skilning á því starfi sem ég ætti að vinna, í bókstaflegri merkingu. Næstum eins og ég yrði var við það í undirvitund minni að ég færðist inn og út úr sólinni sem væri tengiliðurinn minn. Og svo varð það eftir því sem trúrækni mín jókst og styrkur orkunnar óx innra með orkustöðvum mínum, að ég komst eftir síðari æviskeið í samband við kennara – kennara í hinum fornu vísindum stjörnuspekinnar. Það voru vísindakannanir á himintunglum og áhrifum þeirra á þróunina í tíma og rúmi. Og kennarinn gaf mér innsýn í kraftinn og sambandið sem ég hafði náð við kjarna sköpunarinnar. Og svo var það með vilja, ekki þó mínum heldur þeim sem ég gerði að mínum eigin, að samband við lífið var komið á sem óx og dafnaði. Og ljós Helíos og Vesta sem ljómaði í hjarta mínu varð segull – sem magnaði leit mína að Guði með vísindalegum aðferðum.”

„Ég hef því alltaf fetað braut vísindanna, hvort sem það var á Merkúr eða á jörðinni eða öðrum plánetuheimkynnum þessa kerfis og annarra heimskerfa. Drottinn Guð hefur leyft mér að skilja lögmál himinhnattanna og jarðarinnar og orkuflæðisins í tíma og rúmi. Og ég hef fundið fyrir sjálfum mér verða eitt með hringrásum efnisins til að ná tökum á þessum hringrásum, næstum því eins og það væri að fara inn að kjarna efnisins og móðurgyðjunnar áður en farið var út fyrir efnið og móðurgyðjuna. Þar sem ég óx innan frá – frá sólinni innan jarðarinnar og sólinni á bak við sólina – nam ég vegi Guðs og lögmál Guðs með innri rúmfræði sameindarinnar, frumeindarinnar, alheimsins. Og verðleikamat mitt á því sem ég kallaði ekki í fyrstu Guð kom látlaust í gegnum vitundina, hina undursamlegu vitund um þetta fyrirbæri – þetta fyrirbæri sem er lífið, þetta fyrirbæri sem er orka, þetta fyrirbæri sem er samstilling, þetta fyrirbæri sem ég lít nú á sem vilja Guðs.”

Arthúr konungur

Aðalgrein: Arthúr konungur

Sem Arthúr konungur (A.D. á fimmtu öld), sem andlegur meistari í launhelgum Kamelots, varðveitti hann innri kenningarnar. Hann kallaði til riddara Hringborðsins og hirðmeyjanna til að leita að hinum heilaga kaleik og til að öðlast með vígslu leyndardóma Krists. Meðan hann hélt um veldissprotann ríkti eining og friður, röð og regla á Englandi. Merlín var ein af holdtekjum Saint Germains, dulrænn ráðgjafi Arthúrs konungs og riddara hans í leitinni af gralnum.

caption
Píslavætti Thómas Becket, úr miðaldariti (um 1390)

Tómas Becket

Aðalgrein: Thómas Becket

TÓMAS BECKET var kanslari Englands á tólftu öld undir stjórn Hinriks II. Tómas var harðduglegur athafnamaður og mikill málafylgjumaður. Á unga aldri var hann menntaður í bestu skólum Evrópu og þjónaði á heimili erkibiskupsins af Kantaraborg, Þeó*balds, sem kynnti hann fyrir konungi og mælti með honum fyrir kanslaraembættið. Becket og konungur voru sagðir hafa verið samlyndir og samhuga og líklegt er að áhrifa kanslarans hafi gætt mikið á mörgum umbótum í enskri löggjöf sem Hinrik er skráður of virtur fyrir. Herra Tómas hafði íburðarmikinn smekk og þótti heimilishald hans jafnvel glæsilegra en konungs. Herklæddur eins og hver annar bardagamaður leiddi hann árásir og tók þátt í beinum átökum – viljasterkur og strangur en þó vammlaus í lunderni og djúptrúaður.

Árið 1161 dó Þeóbald erkibiskup og kallaði Hinrik á Becket til að taka við embættinu. Kanslarinn neitaði hins vegar og varaði konunginn við að slík staða myndi skilja þá að í siðferðisefnum. Herra Tómas sagði við hann: „Það er ýmislegt sem þú gerir núna sem brýtur í bága við réttindi kirkjunnar sem fær mig til að óttast um að þú krefjist af mér þess sem ég gæti ekki samþykkt.” Konungur gaf þessu engan gaum og lét vígja Tómas til erkibiskups í flýti á hvítasunnu 1162. Hlýðinn konungi og í ástríkri undirgefni við vilja Guðs yfirgaf Becket hið prýdda heimili sitt og hóf að stunda meinlætalifnað. Innst klæða gekk hann á laun í skyrtu úr hrosshári í yfirbótaskyni. Hinn elskaði erkibiskup varði tíma sínum til að útdeila ölmusu til fátækra, nema heilaga ritningu, vitja sjúkra og leiðbeina munkum við störf sín. Í þjónustuhlutverki sínu sem kirkjudómari var Tómas stranglega réttlátur.

Þó að Becket sem erkibiskup hefði sagt af sér kanslaraembættinu gegn vilja konungs, þá rættist samt sem áður forspá hans um að samband kirkju og ríkis yrði fljótlega alvarlegt ágreiningsefni. Kirkjan átti stórar landareignir. Hinrik fyrirskipaði að skattar skyldu greiðast af þeim beint í hans eigin ríkissjóð – sem var rakið inngrip – gegn mótmælum Tómasar. Í öðru máli var klerkur sakaður um að myrða hermann konungs. Samkvæmt gamalgrónum lögum var hann dæmdur fyrir kirkjudómi og var þar sýknaður. Deilur urðu vegna þess að Hinrik taldi erkibiskupinn vera Endurfæðingar hins uppstigna meistara Morya 127 hlutdrægan. Konungur reiddist Tómasi og kallaði saman ráð í Westminster þar sem biskuparnir, undir þrýstingi frá konungi, samþykktu með tregðu byltingarkennda stjórnarskrá frá Clarendon þar sem kvað á um ákveðna konunglega „siðahætti“ í kirkjunnar málum og var prelátum bannað að yfirgefa ríkið án konungsleyfis. Þessi ákvæði voru mjög skaðleg fyrir vald og álit kirkjunnar.

Í trássi við nýju lögin, fór Tómas yfir Ermasund til að leggja málið fyrir páfann. Staðráðinn í því að hefna þessa, bauð konungur honum að afhenda ákveðnar eignir og vegsemdir og hóf herferð til að veikja tiltrúna á hann og ofsækja hann. Loðvík Frakkakonungur var hliðhollur kirkjunni og samþykkti að taka við erkibiskupinum í útlegð. Þrátt fyrir að gangast á hönd hinni ströngu Benediktusarmunkagrein Sistersíanareglunnar í Pontigny klaustrinu í Frakklandi, fékk Tómas bréf frá biskupum og öðrum klerkum Englands þar sem þeir hörmuðu „fjandsamlega afstöðu“ hans til konungs og báðu hann að vera sáttfúsari og fyrirgefa meira. Becket svaraði: „Í langan tíma hef ég þagað og beðið eftir því að Drottinn gæti ef til vill blásið ykkur byr í brjóst að endurheimta styrk ykkar; þó það væri ekki nema einn ykkar, að minnsta kosti, sem myndi rísa upp og standa sem veggur til varnar húsi Ísraels, myndi í það minnsta láta líta út fyrir að taka þátt í baráttunni gegn þeim sem látlaust sækja dag hvern að heri Drottins. Ég hef beðið; ekki einn einasti hefur risið upp. Ég hef þraukað; enginn hefur látið að sér kveða. Ég hef þagað; ekki einn einasti hefur sagt neitt. Ég hef farið leynt; enginn hefur barist, ekki einu sinni til málamynda. … Við skulum því, allir saman, flýta okkur að bregðast við svo að reiði Guðs komi ekki yfir okkur eins og lata og hirðulausa fjárhirða, að vér verðum ekki taldir heimskir hundar, of máttlausir til að gelta."

Hin sögulega deila hafði dregist í þrjú ár þegar Loðvík konungi tókst að koma á sáttum að hluta til á milli Tómasar og Hinriks. En þegar erkibiskupinn sneri aftur til Lundúna 1. desember, 1170, mátti hann þola heiftarlegan fjandskap. Þrír biskupar sem Tómas hafði bannfært fyrir beina óhlýðni við páfann héldu til fundar við Hinrik sem dvaldi þá í Frakklandi. Í reiðiskasti hrópaði Hinrik orð sem fjórir riddarar hans skildu sem tilefni til að halda til Englands og handtaka erkibiskupinn í helgidómi dómkirkjunnar í Kantaraborg þar sem þeir svívirtu hann og myrtu hrottalega. Hin ótrúlegu helgispjöll að myrða erkibiskup í sinni eigin dómkirkju. vöktu skelfingu lostin viðbrögð um allan hinn kristna heim. Þegar fréttin barst til konungs áttaði hann sig á því að misskilin ummæli hans höfðu valdið dauða Beckets. Hinrik einangraði sig og fastaði í fjörutíu daga og gerði síðar opinbera iðrun í dómkirkju Kantaraborgar.

Lík Tómasar Beckets var jarðsett í grafhvelfingu í dómkirkjunni sem varð vettvangur hundruð þúsunda pílagríma sem komu í helgidóminn og sögðu margir frá kraftaverkum sem þeir urðu aðnjótandi vegna fyrirbæna til Beckets. Þennan viðburð gerði rithöfundurinn Chaucer síðan ódauðlegan í Kantaraborgarsögum sínum. Innan þriggja ára var Tómas Becket tekinn í píslavottar og dýrlingatölu. Kvikmyndin Becket sem byggir á leikritinu Becket eftir Jean Anouilh er dramatísk lýsing á lífi Tómasar Beckets.

Thomas More wearing the chain of office of chancellor
Herra Tómas More, eftir Hans Holbein yngri (1527)

Tómas More

Aðalgrein: Tómas More

HERRA TÓMAS MORE, virtur í nútímanum fyrir fjölhæfni sína, fæddist árið 1478 í hjarta Lundúna. Faðir hans, mikilhæfur lögfræðingur og dómari, sá til þess að hann fékk framúrskarandi menntun. Átján ára yfirgaf hann háskólabæinn Oxford með yfirgripsmikla þekkingu á klassíkinni og helgaði sig lögfræðinámi. Tómas var þegar á unga aldri náinn vinur hins virta hollenska hugvísindamanns (húmanista) Erasmusar og naut vaxandi hylli Hinriks konungs VIII sem réð hann til að sinna erindagjörðum erlendis.

Tómas gat sér einnig góðan orðstírs fyrir bókmenntaástundun sína. Hann var fyrstur þarlendra höfunda sem var lofaður fyrir enskan prósa, óbundið mál, fyrir verk sitt Ævi Ríkharðs III (Life of Richard III), nákvæmt sagnfræðirit sem Shakespeare fylgdi eftir með því að fylla upp í smáatriðin

Djúp hollusta More við Guð olli því að hann hugleiddi á tímabili að gefa sig að trúmálum sem kom fram í óvenjulegum meinlætalifnaði í rúm fjögur ár til að temja sér meiri sjálfsaga. Hann ákvað hins vegar að giftast og kona hans og fjögur börn reyndust vera honum hinn mesti gleðigjafi og einasta huggun hans á erfiðleikatímum. Hið ágæta bú fjölskyldunnar í borgarhlutanum Chelsea í Lundúnum hýsti alla fjölskyldu Tómasar þar á meðal ellefu barnabörn. Í gegnum árin varð „litla sæluríkis-útópían“ hans, eins og hann kallaði þetta framtak sitt oft, menningar og fræðasetur sem Erasmus líkti við „akademíu Platóns“. Hinir lærðustu menn samtímans heimsóttu hið velviljaða heimili hans, jafnvel konungurinn sjálfur, til ráðagerða og uppörvunar. Í Chelsea skrifað More hið fræga verk sitt Fyrirmyndaríkið Útópía sem var hnyttin útlistun á yfirborðslegu líferni Englendinga og ófullkomleika enskra laga.

Árið 1529 skipaði Hinrik VIII Tómas lávarð og kanslara Englands. Um hann skrifaði Erasmus: „Enginn maður gefur betri ráð um alvarleg málefni en ef konungur óskar að létta sér lund, fær hann hvergi annars staðar jafn fjörlegar samræður. Oft eru mál margflókin og rista djúpt sem þarfnast málefnalegra og skynsamlegra úrlausna. More leysir þau þannig að komið er til móts við báða málsaðila.”

Þrátt fyrir miklar vegsemdir og velgengni sóttist More ekki eftir neinum vegtyllum. Hann var áfram opinn og móttækilegur fyrir þörfum almúgans sem hann viðhélt með því að ganga daglega um bakgötur Lundúna til að kynna sér líf fátæklinga. Og jafnvel sem lávarður og kanslari hafði hann það til siðs að ganga daglega inn í dómsalina í Westminster Hall þar sem faðir hans starfaði, krjúpa fyrir honum og biðja hann blessunar.

Herra Tómas helgaði sig skyldum sínum af miklu kappi þar til Hinrik, sem þráði að eignast karlkyns erfingja að krúnunni, hugðist hafa hjónaband sitt með Katrínu af Aragoníu að engu og lýsti yfir fyrirætlun sinni um að giftast Önnu af Boleyn. Þar sem skilnaðurinn var án samþykkis páfa og beinlínis í andstöðu við lög kirkjunnar, neitaði More að styðja ákvörðun konungs. Hann sagði upp embætti sínu og hélt sig til hlés í bústað sínum í Chelsea. Þar sem hann hafði miklar áhyggjur af uppreisn Lúthers og villutrúnaðinum sem hann boðaði, hóf hann að nýju ritstörf til varnar kaþólskri trú. Vinasnauður og embættislaus bjó More og fjölskylda hans við sára fátækt. Eftir stóð að hann hafði móðgað Hinrik vegna hinnar opinberu vanþóknunar kanslarans á honum. Konungur leitaðist því við að vanvirða More og endurheimta þannig konunglega æru sína.

Þegar Herra Tómas hafnaði því afdráttarlaust að sverja eið að samþykki sínu fyrir yfirráðum Hinriks sem æðsta yfirmanni hinnar nýju ensku kirkju var hann fangelsaður í hinu skelfilega Tower of London. Þrátt fyrir áreitni lögfræðinga konungsins, neitaði More staðfastlega að slaka á afstöðu kirkjunnar [varðandi hjúskaparbrot konungs*]. Hins vegar forðaðist hann með stjórnkænsku sinni að koma með beinar ásakanir gegn konunginum. [Þess vegna var ekki hægt að kæra hann fyrir lögbrot og taka af lífi. En andstaða hans gegn ráðabruggi konungsins var þögull*] vitnisburður um syndugt ranglæti konungs.

Að lokum hvatti Hinrik öfundsjúka óvini Tómasar til að ljúga gegn honum í eigin dómstól kanslarans í Westminster. Ákærður og dæmdur fyrir landráð var Tómas More hálshöggvinn í Tower Hill árið 1535. Hann kraup fyrir böðlinum og sagði: „Ég dey sem trygglyndur þegn konungs en Guð kemur fyrst.“ Herra Tómas More var tekinn í dýrlingatölu árið 1935. Kvikmyndin byggð á leikriti Roberts Bolt, Maður fjölhæfninnar (A Man For All Seasons), er ævisaga Herra Tómasar More.

caption
Akbar heldur trúralega ráðstefnu

Akbar

Aðalgrein: Akbar hinn mikli

AKBAR HINN MIKLI. Þegar Akbar Jalal Ud-din Mohammed erfði veldisstólinn árið 1556, höfðu hatrömm framandi landvinningaöfl saxað verulegan hluta af mógúlaveldi Indlands á sextándu öld þar til að aðeins höfuðborgin, Delhi, var eftir. Þó að hinn glæsilegi ungi keisari hefði ekki enn náð fjórtán ára aldri við innsetningu sína hóf hann vegferð til að endurheimta ríki sitt. Hann varð þekktur um allan heim sem Akbar hinn mikli – voldugastur mógúlkeisara.

Gífurlegt líkamlegt þrek einkenndi Akbar og stuðlaði að óvenjulegum hernaðarárangri hans. Hann gat riðið um það bil 390 km á einum sólarhring til að koma óvinum sínum að óvörum og sigra þá. Engu að síður tók það mestan hluta langrar valdatíðar hans (1556–1605) að brjóta á bak aftur hina uppreisnargjörnu höfðingja Norður-Indlands og að tryggja frið með því að koma á fót traustum héraðsstjórnum. Akbar var gæddur snilli í stjórnsýslu. Hann greiddi fyrir viðskiptum með því að leggja vegi, með því að koma á fót háþróuðu markaðskerfi og með því að stofna póstþjónustu. Í útsjónarsamri umhyggju fyrir öllum þjóðum undir lögsögu hans afnam Akbar hinn hataða jizya, skatt sem lagður var á þá sem eru ekki múslimar og veitti hindúum æðri stöður í stjórnkerfinu.

Hin nýja höfuðborg, Fatehpur Sikri, varð fljótlega blómleg menningarmiðstöð og stærri en Lundúnaborg síns tíma. Þar safnaði Akbar saman fræðimönnum múslima og hindúahreyfinga, jains- trúarmanna, saraþústra-persa og jesúíta. Hann byggði síðar ibadat Khana, „tilbeiðsluhús“, þar sem lærðir menn af öllum trúarbrögðum gátu hist til að ræða bæði guðfræði og heimspeki. Af því leiddi stofnun margbreytilegrar trúar sem kallast Din-i-Illai (guðleg trú).

Akbar studdi indverskar listgreinar og undir hans stjórn voru stofnaðar meira en eitt hundrað vinnustofur fyrir handiðnir. Keisarinn sjálfur var mikill tónlistarunnandi og hvatti til að nota hana sem aðferð til samskipta milli hindúa og múslima. Þó Akbar væri ólæs var bókasafn hans með myndskreyttum handritum í sömu metum og virtustu söfn í Evrópu.

Í lok valdatíma hans var friðinum og velmeguninni sem Akbar hafði fært Indlandi raskað vegna undirferlis hirðarinnar og niðurrifsstarfsemi sonar hans, Jahangir. Þegar hann erfði hásætið hafnaði Jahangir umbótum föður síns, sérstaklega þeim sem lutu að trúarlegu umburðarlyndi og heimsveldið molnaði hratt. Sonur Jahangir, Shah Jahans, erfði aðeins lítið og óstýrilátt konungsríki en hafði mikið dálæti á menningarlegri arfleifð afa síns. Sem mestur byggingarmeistara á meðal mógúla gaf Shah Jahan Indlandi minnismerkið Taj Mahal sem hvað mest hefur haldið uppi hróðri Indlands.

Thómas Moore

Aðalgrein: Tómas Moore

TÓMAS MOORE fæddist í Dublin árið 1779. Afkastamikill rithöfundur bæði prósa og ljóða sem prýddi land Erins með kærleika sínum til Guðs og manna. Hann útskrifaðist frá Þrenningarháskólanum (Trinity College) árið 1799 og fluttist til Lundúna. Aftaka háskólavinar í uppreisn hinna Sameinuðu Íra (United Irishmen) vakti þjóðrækniseldmóð Moore, sem áhrifagjarns ungs manns með „írskt örlyndi“, sem veitti honum hvað mestan bókmenntalegan innblástur. Beinn stíll hans og ungæðisandi gerði hann að hnyttnum ádeiluhöfundi sem nýttist málstað Breskra frjálslyndismanna (British liberalists). Ljóðin hans nutu sín sem umdeilt pólitískt skop í samfélagsumræðunni. Á meðal stærstu verka Tómasar Moore má finna stórkostlegt ævisögulegt meistaraverk, byggt á trúnaðarminningum Byrons lávarðar. Hans eigið rit, Minningar, dagbók og bréfaskipti (Memoirs, Journal, and Correspondence), er ómetanleg skrá yfir félagslegt líf á Englandi og Írlandi á fyrri helmingi nítjándu aldar.

Þrátt fyrir að hann hafi varið mestum hluta ævinnar á Englandi varð Moore þekktur og dáður sem þjóðlegt ljóðskáld Írlands með riti sínu Írsk lög (Irish Melodies) – sem er safn af vísum sem hann skrifaði við gömul írsk þjóðlög. Þær rómantísku ballöður sem Endurfæðingar hins uppstigna meistara Morya 133 mest er haldið upp á er „Trúðu mér, ef allar þessar elskulegu ungu þokkadísir“ („Believe Me, If All Those Endearing Young Charms“). Allt fram til dagsins í dag sýna verk hans kraftinn í einlægri ást hans á vilja Guðs.

El Morya Khan

Í síðustu jarðvist sinni fæddist El Morya sem Rajput prins á Indlandi og varð síðar munkur sem leitaði sér oft athvarfs í Himalajafjöllunum. Sem meistari M., reyndi hann, ásamt Kúthumi og Djwal Kul að kynna mannkyninu virkni lögmálsins og helgivaldsins með skrifum Mme. H. P. Blavatsky. Ásamt meistara K.H. og Saint Germain stofnaði hann Guðspekifélagið.

Morya steig upp til himna árið 1898 og heldur áfram hinu stórbrotna starfi sínu fyrir stjórn Guðs á jörðu í gegnum loga velvildar og hina jarðnesku chela-nema sína.

Merking nafns hans

El Morya hefur sagt að hann heiti Maraya. Ma stendur fyrir móðuráhrif Guðs. Ra stendur fyrir föðurinn, karllæg áhrif Guðs, kallað Ra af Egyptum til forna. Við köllum það geisla í dag, eins og geisla frá sólu. Ya er logandi Yod eða kraftur heilags anda, þriðji þáttur þrenningar guðlegrar vitundar. El á fornhebresku vísar til Elóhíms eða Guðs.

Svo í nafninu Morya El, eða Maraya El, finnum við nafnlausan mann sem valdi sér vísvitandi nafn til að vegsama Guð og honum var gefið nýtt nafn sem hann notar til að vegsama Guð.

Við greiningu á mörgum nöfnum hinna miklu meistara, jafnvel Sri Magra og annarra þar á undan, komumst við að því nöfnin hafa alltaf verið auðkennd við guðdóminn vegna þess að einstaklingarnir sjálfir hafa verið í gagnteknir af guðdóminum.

Boðskapur El Morya í dag

Yfirmaður Darjeeling ráðsins

El Morya er yfirstjórnandi Musteris góðviljans á ljósvakasviðinu uppi yfir borginni Darjeeling á Indlandi við fjallsrætur Himalayafjallanna. Þetta athvarf er mandala og aflsvið sem helgivald sólarinnar notar til að losa smáskammta af kosmískri orku til plánetunnar. Ásamt félögum Darjeeling ráðsins og Bræðra demantshjartans sem þjóna í Darjeelings-athvarfinu aðstoðar El Morya mannkynið við að skipuleggja, þróa, stýra og framkvæma vilja Guðs sem leggur grunninn að öllum farsælum skipulögðum hreyfingum.

El Morya segir:

El Morya segir: „Þjónustan mín heldur síðan áfram frá Darjeelings-athvarfi bræðralagsins þar sem ég ásamt öðrum bræðrum hins guðlega vilja gef ríkisstjórnum þjóðanna ráðleggingar um mörg þróunarverkefni jarðarinnar, þeim er þjóna sem kennarar og vísindamenn og tónlistarmenn og þeim sem stjórna flæði hins guðlega vilja sem er kraftur, sem er ofgnótt allsnægta. Vilja Guðs er beitt á öllum stigum mannlegrar viðleitni því að vilji Guðs stendur fyrir frumdrög allra verkefna. Hann er undirstaðan að hverju verkefni. Hann er beinagrind líkama ykkar. Hann er efnisorka. Hann er eldur ljósvakans. Vilji Guðs er eldlegi demanturinn í hjarta ykkar.“.[1]

Demants-skínandi hugur Guðs er sjálft hjarta hverrar viðleitni. Opinberir starfsmenn, leiðtogar heimsins og samfélagsins og handhafar opinberra embætta eru menntaðir á milli endurfæðinga og í fíngerðari líkömum sínum í svefni til að endurnærast af knýjandi markhyggju Morya og til að fjörga skilning sinn á óræðum vilja Guðs í stjórnmálum, trúarbrögðum, í viðskiptum og menntun. Uppstignir og óuppstignir meistarar og chela-nemar þeirra hittast oft í athvarfi Morya til að ræða innlend og alþjóðleg vandamál og leiðir til lausnar þeirra. Það var hér sem uppstigni meistarinn El Morya tók á móti John F. Kennedy forseta eftir lát hans árið 1963. El Morya stofnaði Ljós-vitann á tindinum árið 1958 í Washingtonborg í þeim tilgangi að gefa út kenningar uppstignu meistaranna sem þeir færðu boðberunum Mark og Elisabeth Prophet, í framhaldi af viðleitni hans í svo mörgum holdtekjum að koma hugmyndinni um guðlega stjórn á jörðu á framfæri.

Stofnun Summit Lighthouse

Á 1920 og 1930 vann hinn uppstigni meistari El Morya með Nicholas og Helena Roerich, sem settu fram boðskap hans í fjölmörgum útgefnum verkum.

El Morya stofnaði Ljós-vitann á tindinum árið 1958 í Washingtonborg í þeim tilgangi að gefa út kenningar uppstignu meistaranna sem þeir færðu boðberunum Mark og Elisabeth Prophet, í framhaldi af viðleitni hans í svo mörgum holdtekjum að koma hugmyndinni um guðlega stjórn á jörðu á framfæri.

Fyrir milligöngu boðberanna Marks og Elizabeth Prophet hefur Darjeelings-ráðið staðið á bak við margs konar viðleitni: stofnun Saint Germains á Bræðralagi verndara lífslogans árið 1961 til að setja fram uppfærða stigvaxandi fræðslu um kosmísk lögmál; stofnun Maríu guðsmóður, Jesú og Kúthúmis á Alþjóðlega Montessori skólanum sem byggir á meginreglunum sem Dr. Maria Montessori setti fram ásamt kenningum uppstignu meistaranna; stofnun Háskólans á tindinum; og setningu innsiglis Guðs á hina Sigursælu alheimskirkju, hin launhelgu vé allra meistara Stóra hvíta bræðralagsins og samfélag uppstiginna sem óuppstiginna sálna á vígslubrautinni, í austri og vestri, í Kristi og Búddha.

Samvinna við Kúthumi og Djwal Kúl

El Morya sagði okkur að frá og með 6. janúar 1998 munu vitringarnir þrír, El Morya, Kúthumi og Djwal Kúl færa okkur lykilinn að vegi uppstigningarinnar og styrkja alla þá sem þrá að stíga upp í þessu lífi. Þessir meistarar munu hjálpa okkur að jafna karma okkar, og þeir munu vera til staðar þar til að ákveðnar lykilsálir hafa stigið upp.

El Morya, Kúthúmi og Djwal Kúl eru táknmyndir fyrir þrjá skúfa hins þrígreinda loga hjartans — El Morya táknar bláa skúfinn; Kúthúmi, gula skúfinn; og Djwal Kúl, rauðgula skúfinn. Þeir koma til að jafna þrígreinda loga okkar við sína. Ef þið fylgið konungunum þremur og stjörnu Krists-barnsins munið þið koma á vettvang jötu ykkar eigin vaxtarbrodds og endurfæðingar í Kristi.

Gleym-mér-ei

Chela-nám hjá El Morya

Árið 1995 Morya ræddi um hvað þarf til þess að verða chela-nemi hans:

Stöðugleiki er höfuðdyggðin sem ég verð að sjá hjá þeim sem virkilega þrá að verða eitt með mér. Ef ég myndi þjálfa ykkur sjálfur, mín ástkæru, verðið þið að sýna óbilandi staðfestu. Þið verðið að vera reiðubúinn til að taka hvaða áminningu sem er, hvaða ofanísetningu sem er og bæta ráð ykkar síðan skjótt. Þið verðið að hafa bænakraft til að gefa möntrufyrirmæli til uppstignu meistaranna sem þjóna fyrst og fremst á fyrsta geisla. Þið getið gefið hvaða (eða allar) bláu möntrufyrirmæli sem er, hvort sem þær eru til mín eða Súrya eða Himalaya eða Vaivasvata eða Mikaels erkiengils.

Ég segi ykkur, mín kæru, þegar þið mettið ykkur með bláa geislanum og eruð vakandi fyrir alls konar afbrigðilegum hugrenningum sem gæti jafnvel hvarflað að ykkur að gæla við þá munuð þið verða þess áskynja að ég tek ykkur upp á mína arma. Þegar ég verð meistari chela-nema þá legg ég rækt við þann chela-nema þar til yfir lýkur. Þannig, mín kæru, skuluð þið ekki halda að það sé auðsótt mál að ég taki að mér chela-nema.

Mörg ykkar eruð verðandi chela-nemar. En ég verð að reyna í ykkur þolrifin í mörg ár, stundum ævilangt í fleiri lífum, áður en ég fæ merki frá almáttugum Guði sjálfum að ég gæti íþyngt mér með því að taka að mér annan nemanda.

Gerið ykkur grein fyrir því, ástvinir: Það er vel að sér vikið að taka hollustu við vilja Guðs. Því sem hollustumenn munuð færast jafnt og þétt í aukana! og auka mörgum litbrigðum við bláu hringina í kringum fjóra lægri líkama ykkar og líf ykkar verður víðfeðmara. Og þegar þið hafið sannað ykkur undir álagi og í mörgum aðstæðum – óþolandi aðstæðum, hrikalegum aðstæðum – og komist klakklaust úr þeim þá er okkur ljóst að við höfum fyrsta flokks chela-nema í okkar röðum og munum veita ykkur viðtöku svo að þið getið verið smurð fyrir Darjeelings-ráðinu.

Já, þetta er mjög sérstakt tækifæri og allir geta gert sig verðuga. Ég tala um það, ástvinir, vegna þess að ég hef kannað jarðlífið og ég hef hlustað á fyrirlestrana sem hafa verið haldnir í þessum bekk og mér skilst að það séu fjölmargir í heiminum sem myndu leita og finna þessa fræðslu ef þeir vissu að hana væri að finna einhvers staðar.

Þar sem ég er að fara að taka að mér milljónir sálna fyrir þessa starfsemi og þessa leið verð ég að vera viss um að þið sem eruð hér og sem mynduð undirstöður þessa samfélags um alla jörð eruð mér trú.[2]

caption
El Capitan, Yosemite þjóðgarður

Athvörf El Morya

Aðalgrein: Musteri góðviljans

Sem yfirmaður Darjeelings-ráðs hins Stóra hvíta bræðralags stjórnar Morya hringborðsfundum í Athvarfi Guðs-viljans í Darjeeling þar sem sálir valdamanna heimsins og ráðvandir karlar og konur koma saman til að læra hjá þessum lifandi meistara í Guðs vilja.

Morya hefur annað athvarf í El Capitan, Yosemite Valley, Kaliforníu.

Grunntónn El Morya grunntónn, sem fangar tíðni hinnar rafræn viðveru hans, samdi Sir Edward Elgar að hluta til í tónverkinu „Pomp and Circumstance“. Blómin hans eru bláa rósin og gleym-mér-ei og ilmur hans er sandelviður.

Sjá einnig

Chohan-meistarar

Athvarf El Morya

Sáttmáli El Morya

Til frekari upplýsinga

Mark L. Prophet og Elizabeth Clare Prophet, Chela-neminn og vegurinn: Leiðarlyklar að sálarstjórn á vatnsberaöld, Bræðralagsútgáfa, 2023; (El Morya, The Chela and the Path: Keys to Soul Mastery in the Aquarian Age).

Mark L. Prophet and Elizabeth Clare Prophet, Lords of the Seven Rays.

Heimildir

Mark L. Prophet and Elizabeth Clare Prophet, The Masters and Their Retreats.

Mark L. Prophet og Elizabeth Clare Prophet, Chela-neminn og vegurinn: Leiðarlyklar að sálarstjórn á vatnsberaöld, Bræðralagsútgáfan, 2023.

Mark L. Prophet and Elizabeth Clare Prophet, Saint Germain On Alchemy: Formulas for Self-Transformation.

Mark L. Prophet, 6. ágúst, 1972.

  1. El Morya, "To Awaken America to a Vital Purpose," 16. apríl 1976, í Mark L. Prophet and Elizabeth Clare Prophet, Lords of the Seven Rays, 2. rit, 2. kafli.
  2. El Morya, „Clean House !“ Pearls of Wisdom, 38. bindi, nr. 26.